Í Tékklandi þurfti að rýma um 51 þúsund heimili í norðurhluta landsins. Þar hefur rafmagn einnig slegið út. Búið er að setja upp flóðavarnir í höfuðborginni Prag. Í Opole héraði í Póllandi hafa ár flætt yfir árbakka sína og hvatti bæjarstjórinn í Glucholazy til þess að fólk færði sig ofar. Í Kraká var íbúum boðið að sækja sandpoka til að verja heimili sín fyrir flóðum.

Bærinn Klodzsko í Póllandi hefur orðið hvað verst úti í þessum hörmungum. Þar þurftu 1.600 manns að yfirgefa heimili sín og hefur forseti landsins, Donald Tusk, hvatt íbúa til að vinna vel með viðbragðsaðilum þegar og ef þau eru beðin að yfirgefa heimili sín.
Rafmagns- og internetlaus
Um það bil 17 þusund manns eru rafmagnslaus á svæðinu og sums staðar er ekki símasamband eða internet. Tusk greindi frá því í ávarrpi í gær að hann hafi ákveðið að nota sums staðar Starlink gervitungl til að tryggja fólki samband.

„Við erum aftur að mæta afleiðingum loftslagsbreytinga en á meginlandi Evrópu verðum við sífellt meira vör við þær,“ er haft eftir forseta Rúmeníu, Klaus Iohannis, í frétt um málið á vef BBC.
Öfgafull úrkoma tíðari
Þar kemur fram að afleiðingar loftslagsbreytinga í Evrópu gæti verið tíðari öfgafull rigning. Hlýrra loftslag haldi betur raka sem geti valdið þyngri úrkomu.

„Þetta eru náttúruhamfarir af stórum skala,“ segir Emil Dragomir, bæjarstjóri Slobozia Conachi í Rúmeníu, að það hafi þurft að rýma 700 heimili í bænum.
Í Tékklandi brast stífla á laugardag í suðurhluta landsins og hvatti umhverfisráðherrann, Petr Hladik, þau sem voru á verstu svæðunum til að yfirgefa heimili sín. Það væri töluverð hætta á skyndiflóðum. Búist er við því að það haldi áfram að rigna í Tékklandi fram á þriðjudag.