Viðskipti innlent

Sér­eign inn á hús­næðis­lán hafi nýst sterk­efnuðum mest

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekki er gert ráð fyrir að almenn heimild til nýtingar séreignarsparnaðar til þess að greiða niður húsnæðislán verði framlengd í fjárlagafrumvarpi sem Sigurður Ingi lagði fram í vikunni.
Ekki er gert ráð fyrir að almenn heimild til nýtingar séreignarsparnaðar til þess að greiða niður húsnæðislán verði framlengd í fjárlagafrumvarpi sem Sigurður Ingi lagði fram í vikunni. Vísir/Vilhelm

Fjármálaráðherra segir að sterkefnað stóreignafólk hafi fengið mestan stuðning frá ríkinu með almennri heimild til þess að nýta séreignarsparnað inn á húsnæðislán. Ekki sé gáfulegt af ríkinu að halda áfram að styðja þann hóp. 

Gagnrýnisraddir heyrast nú víða um að heimildin sé ekki endurnýjuð í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem var lagt fram í vikunni. Áfram verður hægt að nýta séreignarsparnað við kaup á fyrstu íbúð. Umboðsmaður skuldara er á meðal þeirra sem hafa hvatt ríkisstjórnina til þess að endurnýja heimildina þar sem enn sé þörf fyrir það.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra, sagði misskilnings gæta um heimildina í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Heimildin hefði verið framlengd tvisvar og síðast þegar það var gert hafi verið sólarlagsákvæði í henni. Því hefði engin ný ákvörðun verið tekin um heimildina nú.

Heimildin fyrir fyrstu fasteignakaup nýttist vel til þess að hjálpa kaupendum úr öllum tekjutíundum. Almenna heimildin hefði aftur á móti þróast þannig að mestur stuðningur rynni til þeirra sem hefðu langhæstu launin og ættu stærstu eignirna. Nefndi Sigurður Ingi dæmi um fólk sem hefði notað úrræðið til þess að lækka skuldabyrði sína niður í fjörutíu prósent veðsetningu eða meira.

„Þá er kannski ekki gáfulegast af ríkinu að halda áfram að styðja við þann hóp,“ sagði fjármálaráðherra.

Spurður sérstaklega að því hvort hægt yrði að endurskoða heimildina þannig að hún nýttist frekar tekjulægri hópum sagði Sigurður Ingi að ýmislegt yrði án efa skoðað.

Stuðningur ríkisins við kaup á fyrstu fasteign nýttist mun betur en almenna heimildin.

„Þar nýtist hann miklu betur öllum tekjutíundum,“ sagði Sigurður Ingi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×