Lífið

„Barn­lausa katta­konan“ lýsir yfir stuðningi við Har­ris

Atli Ísleifsson skrifar
Bandaríska söngkonan Taylor Swift er ein allra vinsælasta söngkona heims.
Bandaríska söngkonan Taylor Swift er ein allra vinsælasta söngkona heims. EPA

Bandaríska stórstjarnan Taylor Swift hefur lýst yfir stuðningi við Kamölu Harris, varaforseta og frambjóðanda Demókrata, í bandarísku forsetakosningunum sem fram fara 5. nóvember næstkomandi.

Þetta gerði Swift á samfélagsmiðlum skömmu eftir að kappræðum Harris og Donald Trump, frambjóðanda Repúblikana, lauk í nótt.

Swift skrifaði undir stuðningsyfirlýsinguna, „Barnlausa kattakonan“, þar sem hún vísaði í orð JD Vance, varaforsetaefnis Trump, frá árinu 2021 um að pólitískir andstæðingar hans, þeirra á meðal Harris, væru upp til hópa „barnlausar kattarkonur“ sem væru óánægðar með líf sitt. Með færslunni fylgir svo mynd af Swift þar sem hún heldur á ketti sínum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Swift, sem er ein vinsælasta söngkona heims, tjáir sig opinberlega um yfirstandandi kosningabaráttu vestanhafs. Í færslunni segist hún munu kjósa Harris þar sem „hún berst fyrir réttindum og þeim málum sem ég tel að þurfi stríðskonu til að ná fram“. 

Þá hrósaði hún sérstaklega leiðtogahæfileikum Harris og segir að Bandaríkin geti náð svo miklu meiri árangri ef leiðtogi þjóðarinnar stjórni af yfirvegun en ekki glundroða.

Swift lýsti yfir stuðningi við Joe Biden í forsetakosningunum 2020, en hún tjáði sig fyrst opinberlega um stjórnmálin vestanhafs þegar hún lýsti yfir stuðningi við frambjóðanda Demókrata í kosningum til ríkisstjóra í heimaríki hennar Tennessee árið 2018.


Tengdar fréttir

Trump í mikilli vörn en lýsir yfir sigri

Donald Trump varði nánast öllum kappræðunum í nótt í að verjast Kamölu Harris. Eitt hennar helsta markmið í aðdraganda kappræðanna var, samkvæmt ráðgjöfum hennar, að koma Trump úr jafnvægi og er óhætt að segja að það hafi tekist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×