Kelce var sóknarlínumaður hjá Philadelphia Eagles við góðan orðstír í áraraðir en ákvað að leggja skóna á hilluna eftir síðustu leiktíð.
Margir sóttust eftir kröftum hans í sjónvarpsútsendingar í kringum NFL-deildina enda hefur hlaðvarp hans og bróður hans, Travis Kelce, sem leikur með Kansas City Chiefs, orðið gríðarlega vinsælt á skömmum tíma.
ESPN samdi við Kelce fyrir nýhafna leiktíð í NFL-deildinni og hans fyrsta útsending var í kringum leik San Francisco 49ers og New York Jets sem fram fór í gærkvöld.
Scott van Pelt kynnti Jason Kelce til leiks í frumraun hans með ESPN í gær. Þar rakti hann frábæran árangur Kelce innan vallar og sagði hann framtíðarmann í frægðarhöll NFL-deildarinnar.
„Hafandi sagt það er Jason Kelce í skyrtu sem hann keypti í verslunarmiðstöð vegna þess að hann gleymdi að taka fötin sín með,“ sagði van Pelt.
„Skyrtan passar yfir magann, ég er búinn að skafa aðeins af mér. En brjóstin mín eru í vandræðum,“ sagði Kelce léttur og augljóslega mátti sjá að skyrtan passaði ekki vel yfir brjóstkassa hans.
49ers unnu sterkan 32-19 sigur á Aaron Rodgers og félögum í Jets í gær, þrátt fyrir að vera án stjörnuleikmanns síns, Christian McCaffrey.
Andri Ólafsson, Henry Birgir Gunnarsson og Eiríkur Stefán Ásgeirsson munu fara yfir þann leik og allt það helsta í fyrstu umferð NFL-deildarinnar í Lokasókninni sem verður sýnd klukkan 20:00 á Stöð 2 Sport 2 í kvöld.