Hinn ítalski Sinner, sem er efsti maður heimslistans, vann úrslitaleikinn í New York í kvöld 6-3, 6-4 og 7-5.
Bandaríkjamenn hafa þurft að bíða í yfir tvo áratugi eftir sigri á mótinu í einliðaleik karla, og þurfa enn að bíða. Andy Roddick, sem fylgdist með úr stúkunni í dag, var síðasti heimamaðurinn til að vinna, árið 2003.
Sinner hefur hins vegar verið afar öflugur á hörðum velli síðasta árið og aðeins tapað tveimur af síðustu 38 leikjum á því undirlagi. Hann vann Opna ástralska mótið í janúar og er næstyngstur í sögunni til að vinna þessi tvö risamót á sama ári, á eftir Jimmy Connors sem vann þau fyrir fimmtíu árum.
2 - Jannik Sinner is second youngest player to win the Australian and US Open Men’s Singles titles during the same season in the Open Era, older only than Jimmy Connors in 1974. Meticulous. #USOpen | @usopen @atptour @ATPMediaInfo pic.twitter.com/Oe9Cu3N8rB
— OptaAce (@OptaAce) September 8, 2024
Sinner er fyrsti Ítalinn til að vinna sigur í einliðaleik á Opna bandaríska og þungu fargi virtist létt af honum, kannski ekki síst vegna lyfjamálsins en hann greindist í tvígang með ólöglegt efni í líkamanum í mars. Skýringin á því, sem tekin var gild, var sú að sjúkraþjálfari hans hefði notað efnið á skurð á eigin hönd, áður en hann meðhöndlaði Sinner.
„Þessi titill hefur svo mikla þýðingu fyrir mig, því undanfarnir tímar hafa ekki verið auðveldir. Liðið mitt hefur stutt mig á hverjum degi og ég þakka þeim sem standa mér næst,“ sagði Sinner eftir sigurinn í kvöld. Hann hefur notið síðustu tveggja vikna, á mótinu:
„Ég stóð mig ágætlega. Við tókum þetta dag fyrir dag, reyndum að æfa vel og trúa á þetta. Ég var meðvitaður um það hve andlegi þátturinn er mikilvægur, sérstaklega á þessu móti. En vinnan heldur alltaf áfram. Ég veit að ég get enn bætt mig en maður verður að vera stoltur af því sem maður afrekar og vinna svo fyrir fleiri afrekum,“ sagði Sinner.