Fótbolti

Ítalía kom til baka í París og Belgía lagði Ísrael í Ung­verja­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Giacomo Raspadori fagnar marki sínu.
Giacomo Raspadori fagnar marki sínu. EPA-EFE/MOHAMMED BADRA

Þrátt fyrir að lenda undir eftir aðeins þrettán sekúndur kom Ítalía til baka gegn Frakklandi þegar þjóðirnar mættust í A-deild Þjóðadeildar karla í knattspyrnu, lokatölur 1-3. Þá fór Kevin De Bruyne mikinn í 3-1 sigri Belgíu á Ísrael.

Bradley Barcola kom Frakklandi yfir þegar leikurinn var vart hafinn en gestirnir létu það ekki á sig fá. Federico Dimarco jafnaði metin eftir undirbúning Sandro Tonalo sem hóf leikinn þrátt fyrir að vera vart búinn að spila fyrir félagslið sitt undanfarna tíu mánuði eftir að sitja af sér bann fyrir að brjóta veðmálareglur á Ítalíu er hann lék fyrir AC Milan.

Staðan 1-1 í hálfleik en í síðari hálfleik voru gestirnir mun sterkari aðilinn. Davide Frattesi kom Ítalíu yfir og Giacomo Raspadori tryggði sigurinn með þriðja marki gestanna á 74. mínútu, lokatölur 1-3.

Í Ungverjalandi tók Belgía á móti Ísrael. Kevin De Bruyne kom heimamönnum yfir eftir undirbúning Jérémy Doku en þeir eru báðir leikmenn Englandsmeistara Manchester City.

Timothy Castagne varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 36. mínútu og staðan 1-1 í hálfleik. Youri Tielemans kom Belgíu hins vegar yfir eftir aðeins þriggja mínútna leik í síðari hálfleik og fjórum mínútum síðar bætti De Bruyne við öðru marki sínu, að þessu sinni af vítapunktinum.

Ekki löngu eftir það fengu Belgar aðra vítaspyrnu en De Bruyne ákvað að leyfa Luis Openda að taka hana frekar en að tryggja þrennuna. Openda brenndi hins vegar af og lokatölur í Debrecen 3-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×