„Þetta eru góð fjárlög. Þau styðja við það sem við höfum verið að leggja upp með og byggja auðvitað á fjármálaáætluninni sem var samþykkt á þinginu í vor,“ sagði Sigurður Ingi að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
„Sú áætlun hefur fengið umsögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Seðlabankanum um að þar sé nægjanlegt aðhald til þess að ná verðbólgu hér niður og síðan væntanlega vöxtum í framhaldinu. Um leið þá erum við með öflugan ríkissjóð sem styður við velferðarkerfið og alla þá þætti sem þurfa að ganga í íslensku samfélagi.“
Er eitthvað um niðurskurð í fjárlögunum?
„Nei, það er eins og ég segi, við erum að reyna að ná mjúkri lendingu í hagkerfinu eftir þennslu undanfarina ára. Við höfum séð mikinn gríðarlega mikinn ágang á ríkissjóði umfram það sem við spáðum í fjárlögum hvers árs, eða hundrað milljarða þrjú ár í röð. Þá fjármuni höfum við notað til að lækka skuldabirgði ríkissjóðs. Þannig staðan er býsna góð og þegar við horfum til framtíðar, bara strax á næsta ári, þá virðumst við vera komin í jafnvægi.“
Sigurður Ingi segir að í fjárlögunum sé tekið tillit til þess að stýrivextir séu farnir að býta á hjá heimilum landsins.
„Við gerðum það klárlega í tengslum við kjarasamningana og þær aðgerðir sem við ákváðum, og höfum komið þeim í fjárlögin. Þannig það er verið að styrkja þá hópa sem verða mest fyrir barðinu á þessum háu vöxtum, ungu fólki, barnafólki, fólki á húsnæðismarkaði. Það eru þeir þættir sem við tókum á þar, og munum halda áfram að gera.“
Hann bendir á að það sé mat Seðlabankans að þurfi hátt raunvaxtastig að svo stöddu, en á sama tíma séu vonbrigði að verðbólgan hafi ekki farið hraðar niður.
„Ég hef hins vegar fulla trú á því að við séum komin á þá braut að þetta fari hratt lækkandi og við munum sjá það hér á næstu mánuðum.“