Júlíus kemur inn í hópinn fyrir Brynjar Inga Bjarnason, miðvörð, sem meiddist í leik með HamKam í norsku úrvalsdeildinni í gær.
Brynjar Ingi Bjarnason meiddist í leik með félagsliði sínu um helgina og getur ekki verið með A landsliði karla í komandi verkefni. Júlíus Magnússon (5 A-landsleikir) hefur verið kallaður inn í hans stað. pic.twitter.com/6Tj6yG9V9c
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) September 2, 2024
Brynjar Ingi hafði verið kallaður inn fyrir Sverri Inga Ingason sem varð að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.
Júlíus á að baki fimm A-landsleiki, allt vináttulandsleiki. Hann spilaði síðast í leikjum við Svíþjóð og Eistland í janúar 2023. Hann var á varamannabekknum í fjórum leikja Íslands í undankeppni EM í fyrra.
Júlíus er fyrirliði Fredrikstad og komst með liðinu upp í úrvalsdeild í fyrra, þar sem liðið hefur gert afar góða hluti og situr núna í 5. sæti.
Íslenska landsliðið kemur saman í Reykjavík í dag og hefur æfingar fyrir leikina sem framundan eru. Fyrri leikurinn er á Laugardalsvelli á föstudag, gegn Svartfjallalandi, og sá seinni þremur dögum síðar á útivelli gegn Tyrklandi.
Báðir leikirnir verða í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.