„Mér líður bara mjög vel. Ég er mjög þreyttur, er að koma til baka eftir meiðsli en þetta var bara geðveikt. Liðsandinn í liðinu skilaði þessum sigri,“ sagði Ástbjörn.
Gengi KR hefur verið slæmt í nánast allt sumar og hefur liðið tapað tveimur leikjum í röð fyrir þennan. Oft á tíðum hefur vantað einhvern anda en hann var sannarlega til staðar í dag.
„Það voru bara allir 100% að róa í sömu átt og við bara ætluðum að gera þetta saman. Gera þetta fyrir stuðningsmennina, liðsfélagana og alla í kringum það. Bara fyrir KR stoltið.“
Sóknarmenn KR áttu frábæran leik í dag. Luke Rae var sífellt að ógna vörn ÍA og Benóný Breki gerði þrennu í fyrri hálfleik. Ástbjörn átti sömuleiðis góðan leik.
„Þeir báðir bara geggjaðir leikmenn. Hraðinn í Luke og Benó góður að klára færin. Benóný er geggjaður framherji. Þeir hjálpuðu okkur mikið í dag og bara allt liðið gott. Fyrri hálfleikur var ógeðslega flottur fannst mér,“ sagði Ástbjörn og hélt svo áfram,
„það var ólýsanleg tilfinning að spila hérna aftur og í þessari treyju. Ég er gríðarlega stoltur og gaman að fá sigur hérna í fyrsta leik.“
KR skilur sig aðeins frá neðstu sætunum með sigrinum í dag og fær smá andrými.
„Ég held það sé alltaf stefnan hjá KR að vera ekki við botninn. Ég held það sé mikilvægt að hugsa þannig og fara inn í hvern leik með það í huga að við eigum ekki að vera í þessari stöðu. Það eru fullt af góðum leikmönnum í liðinu og við förum í hvern leik til að vinna hann,“ sagði Ástbjörn að lokum.