Enski boltinn

Hetjan Hákon Rafn: „Líður virki­lega vel í þessu liði“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Varði vítaspyrnu þegar mest á reyndi.
Varði vítaspyrnu þegar mest á reyndi. Brentford

„Virkilega góð tilfinning,“ sagði Hákon Rafn Valdimarsson aðspurður hvernig það var að verja vítaspyrnu í sínum fyrsta keppnisleik fyrir enska úrvalsdeildarfélagið Brentford.

Hákon Rafn fékk loks tækifæri í keppnisleik með Brentford þegar liðið sótti Colchester United heim í enska deildarbikarnum. Leikurinn var jafnari en hinn 22 ára gamli Hákon Rafn hefði viljað en Brentford vann nauman 1-0 sigur þökk sé íslenska landsliðsmarkverðinum.

„Ég hafði skoðað síðustu vítaspyrnur þeirra svo mér leið eins og ég vissi aðeins hvað væri að fara gerast,“ sagði markvörðurinn sem varði spyrnuna með fætinum. Hann var einnig spurður út í leikinn í heild sinni.

„Við áttum erfitt uppdráttar með löngu innköstin þeirra, erfitt að meðhöndla það. Eftir stundarfjórðung fannst mér við ná tökum á föstu leikatriðunum þeirra. Þetta var ekki okkar besti leikur en við komumst í gegnum þetta og unnum leikinn, það er mikilvægast.“

„Eftir fyrstu tvö eða þrjú föstu leikatriðin fannst mér við ná tökum á þessu og það er mjög mikilvægt í þessum leikjum,“ bætti hann við áður en hann var spurður út í lífið hjá Brentford.

„Það er virkilega gott. Er að læra og bæta mig á hverjum degi. Frábært að spila fyrsta leikinn í kvöld og mér líður virkilega vel í þessu liði, virkilega ánægður.“

Hákon Rafn var einnig spurður út í hvaða þætti markvörslu hann hefði verið að vinna hvað mest í síðan hann gekk í raðir félagsins.

„Örugglega öllu. Mér finnst ég hafa bætt mig mikið síðan ég kom. Ég þarf að halda áfram, halda fókus og vera klár þegar kallið kemur.“

Markvörðurinn var einnig spurður út í landsleik Íslands og Englands á Wembley í aðdraganda EM.

„Frábær reynsla. Að vinna England á Wembley var virkilega gott, og að halda hreinu. Nú eigum við í Brentford mikilvægan leik gegn Southampton og svo koma tveir landsleikir með Íslandi,“ sagði markvörðurinn að lokum.

Viðtalið má finna í heild sinni á vefsíðu Brentford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×