Á Norðurlandi eystra er gert ráð fyrir talsverðri eða mikilli rigningu, einkum vestantil, svo sem við Eyjafjörð og á Flateyjarskaga. Að sögn Veðurstofu Íslands mun vatnsborð í ám og lækjum vaxa talsvert og gætu vöð og árfarvegir orðið varasamir. Einnig aukist líkur á aurskriðum og grjóthruni, og ættu ferðamenn því að forðast brattar fjallshlíðar.
Hið sama á við á Vestfjörðum þar sem varað er við úrhellisrigningu frá miðnætti til klukkan 3 í nótt, einkum norðantil.
Veðurstofan varar við norðanhvassviðri á Breiðafirði og Vestfjörðum frá miðnætti til 21 á morgun, 13 til 20 metrum á sekúndu með vindhviðum allt að 30 til 35 metrum á sekúndu. Veðrið er sagt varasamt ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindum.
Slæmt ferðaveður á Suðausturlandi og úrhelli á Stöndum og Norðurlandi vestra
Gul viðvörun tók gildi fyrir Suðausturland klukkan 9 í morgun og gildir til klukkan 18. Gert er ráð fyrir 13 til 20 metrum á sekúndu í landshlutanum, hvassast austantil. Má búast við snörpum vindhviðum við fjöll sem ná allt að 35 metrum á sekúndu. Veðrið er sagt varasamt fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindum.
Vegagerðin varar sérstaklega við miklum vindi á milli Djúpavogs og Skaftafells í dag. Vegfarendur á stærri bílum eða ökutækjum sem taka á sig mikinn vind eru beðnir um að vera ekki á ferðinni.
Varað er við úrhellisrigningu á Ströndum og Norðurlandi vestra frá klukkan 3 í nótt fram til 23:30 á morgun. Talsverð eða mikil rigning, einkum á utanverðum Tröllaskaga, í Skagafirði og á Ströndum. Vatnsborð í ám og lækjum mun vaxa talsvert og vöð og árfarvegir geta því orðið varasöm. Einnig aukast líkur á aurskriðum og grjóthruni. Frekari upplýsingar má finna á vef Veðurstofunnar.
Fréttin var uppfærð kl. 11:28 með upplýsingum um viðvaranir fyrir Norðurland eystra, Norðurland vestra og Strandir.