Fyrir vinnustaði er þetta góður tími til að gefa starfsfólki góða hvatningu fyrir komandi vikur og mánuði. Nú er lag að ná síðustu markmiðum ársins.
Þeir sem leiða eða stjórna, ættu því endilega að huga sérstaklega að öllu því sem gefur starfsfólki innblástur og kraft. Eykur á eldmóðinn. Enda hafa rannsóknir sýnt að þar sem fólk upplifir hvatningu í starfi, er starfsánægjan meiri, fólk er minna fjarverandi, líkur á kulnun eru minni og fólk er almennt til í að leggja meira á sig til þess að fyrirtækið nái árangri.
Af mörgum góðum ráðum er að taka þegar kemur að því að hvetja starfsfólk til dáða. Og þar skiptir allt máli; Að vinnustaðamenningin sé jákvæð og uppbyggileg í grunninn. Að vinnuaðastaða fólks sé góð. Að fólk upplifi sálfræðilegt öryggi á vinnustað, þar með talið að samskipti séu hreinskiptin og góð. Að fjölbreytninni sé fagnað.
Til viðbótar þarf stemningin líka að vera til staðar. Ákveðin gleði í loftinu og það andrúmsloft sem hvetur alla til að taka þátt.
Í dag ætlum við þó aðeins að impra á fjórum atriðum sem teljast lykilatriði og eru ágætis veganesti inn í haustvikurnar. Þessi fjögur atriði eru:
1. Allir finna til sín
Það er ekki nóg að tala um að allir í teyminu skipti máli. Hver og einn starfsmaður þarf að upplifa það að sú sé raunin. Það að allir hafi rödd, að vinna hvers og eins sé metin og að engin sé skilin út undan skiptir máli. Gott tækifæri til að efla þessa tilfinningu starfsfólks er á teymisfundum sem margir vinnustaðir halda reglulega.
2. Forvitni er góð
Það hefur löngum verið um það rætt hversu gott það er og mikilvægt að starfsfólk upplifi vinnustaðinn sinn tilbúinn til þess að efla það með öllum ráðum og dáðum; líka með því að gefa fólki tækifæri á að læra eitthvað nýtt eða spreyta sig á einhverju nýju og svo framvegis. Einföld leið til að hvetja fólk til að þróast og eflast sem starfsmenn, er að hvetja fólk til að vera forvitið. Og hér er auðvitað ekki verið að tala um forvitni um hag náungans, heldur forvitni um það hvernig hægt er að gera þetta eða hitt, ná einhverjum árangri, byggja eitthvað upp og svo framvegis.
Oft leiðir forvitni til þess að fólk er tilbúið til að fara oftar út fyrir þægindarrammann sinn og stíga einhver skref sem eflir það og kennir. Viljinn til að læra eitthvað nýtt verður sterkari.
3. Að treysta…. fyrir alvöru
Eitt af því sem hvetur flesta til dáða í starfi, er að finna að þeim sé vel treyst fyrir vinnunni sinni. Þetta þýðir að yfirmaður er ekki að rýna í smáatriðum í það hvernig starfsmaðurinn vinnur að þessu eða hinu, heldur einfaldlega lætur í það skína að starfsfólkinu sé einfaldlega treyst til að vinna verk sín sem best fyrir heildina. Hér gildir enginn sýndarskapur. Því traustið þarf fyrir alvöru að vera til staðar.
4. Þjálfarinn segir alltaf: Við
Loks er það hvernig við tölum. Því það að segja ég, þau, þeir, þær, hinir….. eru orð sem helst ættu að heyrast sem sjaldnast á meðan orðið VIÐ er orðfærið sem stjórnendur temja sér. Og almennt boða. Því ef liðsandinn er til staðar og þjálfarinn góður, eru það fyrst og fremst VIÐ öll sem ætlum að bretta upp ermar og ná frábærum árangri í haust.