Fyrir suma keppendur þá var lokahátíðin nefnilega hættulegri en þeir bjuggust örugglega við.
Paltrinieri var fánaberi Ítala á lokahátíðinni eftir að hafa unnið silfurverðlaun í 1500 metra skriðsundi og bronsverðlaun í 800 metra skriðsundi.
La Gazzetta dello Sport segir frá óhappi Paltrinieri á lokahátíðinni. Hann braut nefnilega vinstri olnbogann á kvöldinu þegar íþróttafólkið kvaddi leikana.
„Ég braut olnbogann á kvöldi lokahátíðarinnar en ekki þó þegar ég var að veifa fánanum,“ sagði Paltrinieri.
„Það var mjög gaman að vera fánaberi. Ég er búinn að fara í aðgerð og sný fljótt til baka,“ sagði Paltrinieri.
Hann birti mynd af sér í sjúkrarúminu með olnbogann í fatla.
Paltrinieri er 29 ára gamall en hefur nú unnið til verðlauna á síðustu þremur Ólympíuleikum þar af gullverðlaun í 1500 metra skriðsundi á leikunum í Ríó 2016. Hann er líka nífaldur heimsmeistari þar af sex sinnum í 1500 metra skriðsundinu, þrisvar í 50 metra laug og þrisvar í 25 metra laug.
Það fylgir því greinilega einhver óheppni að vera fánaberi Ítala á Ólympíuleikum því frægt varð þegar hástökkvarinn Gianmarco Tamberi missti giftingarhringinn sinn í Signu á setningarhátíðinni.