Rafleiðni hefur mælst óvenjuhá í ánni Skálm og vatn flæðir yfir þjóðveginn. Hætta getur verið nálægt jökulsporðunum þar sem jökulvatn geisar út og getur þessu fylgt gasmengun sem getur skapað hættu fyrir fólk í lægðum nálægt jökulsporðunum, að því er fram kemur í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.
Þjóðveginum hefur verið lokað við Höfðabrekku í Mýrdal að Meðallandsvegi í austri. Einnig eru Hrífunesvegur og Öldufellsleið lokuð.
Þá hefur lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur tekið ákvörðun um að svæðið við Sólheimajökul verði rýmt.

„Þetta er jökulflóð og það er óvissustig í gangi og við erum að ná utan um það,“ segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Lokanir séu við Skaftártungu og Vík í Mýrdal og fólk á svæðinu eigi að koma sér út af svæðinu þar á milli sem fyrst.
„Ekki vera að fara inn á svæðið til að skoða, það er ekkert til að sjá eins og er. Við erum með lokanir þarna það langt frá.”
Jón Gunnar segir óljóst hvort brúin yfir ánna Skálm sem flæðir nú yfir bakka sína austan Mýrdalsjökuls sé í hættu.
Ekki náð hámarki við þjóðveginn
Aukning í rafleiðni fór að mælast í Skálm í nótt og í morgun mátti sjá aukinn óróa undir jöklinum. Jökulhlaup fór svo að mælast í ánni Skálm á öðrum tímanum í dag. Á vef Veðurstofunnar segir að hlaupið sé stórt, mögulega stærra en síðasta stóra hlaup sem var árið 2011 og kom undan Kötlujökli í austanverðum Mýrdalsjökli.
Samkvæmt upplýsingum sem Veðurstofan fékk frá flugmanni kemur hlaupvatn undan Sandfellsjökli eins og staðan er núna og fer niður í farveg Skálmar. Miðað við þær myndir virðist hlaupið hafa náð hámarksrennsli við jökulsporðinn. Hlaupið eigi þó enn eftir að ná hámarki við þjóðveg 1.