Skoðun

Verndum Yazan og Barna­sátt­málann

Askur Hrafn Hannesson og Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir skrifa

Yazan er 11 ára drengur á flótta. Hann er greindur með vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne sem er einn ágengasti og alvarlegasti vöðvarýrnunarsjúkdómurinn. Lífslíkur þeirra sem ekki fá meðferð við sjúkdómnum eru 19 ár.

Nú eru aðeins 10 dagar til stefnu þangað til Yazan verður brottvísað frá Íslandi.

Mál á borð við brottvísun Yazan eru einmitt ástæðan fyrir því að á Íslandi er lögfestur Barnasáttmáli sem skyldar alla ákvarðanatöku stjórnvalda til að virða réttindi barna.

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra segir stjórnsýslulegri meðferð málsins vera lokið og að ekki sé þörf á endurskoðun þess. Þó það sé skiljanlegt að fólki finnist það þæginleg tilhugsun að kerfið geti ekki brugðist og að allar ákvarðanir ríkisvaldsins hljóti að vera byggðar á því sem er barninu fyrir bestu þá er alls ekki hægt að treysta á það. Þetta virðist vera eitt stærsta brot Barnasáttmálans frá lögfestingu hans.

Það að flytja dauðvona barn, upp í flugvél og til Spánar, þar sem hann verður á götunni, án dvalarleyfis og læknisþjónustu, er ekki eitthvað sem við getum látið bjóða okkur. Að öllu óbreyttu á Yazan aðeins örfá ár eftir ólifuð.

Ef að íslenskir ráðamenn hafa brugðist skyldu sinni gagnvart Yazan og Barnasáttmálanum þá er það undir okkur, íslenskum almenningi komið að grípa til okkar ráða, með hvaða úrræðum sem er og sama hvað það kostar.

Þetta kemur ekki til greina.

Höfundar eru aðgerðasinnar og vinir Yazan og fjölskyldu.




Skoðun

Sjá meira


×