Fótbolti

Val­geir á leið til Düsseldorf

Valur Páll Eiríksson skrifar
Valgeir í baráttunni við Memphis Depay í æfingaleik Hollands og Íslands fyrir rúmum mánuði.
Valgeir í baráttunni við Memphis Depay í æfingaleik Hollands og Íslands fyrir rúmum mánuði. Getty

Landsliðsmaðurinn Valgeir Lunddal Friðriksson er á leið til Fortuna Düsseldorf í Þýskalandi.

Valgeir hefur leikið vel með Häcken í Svíþjóð undanfarin misseri og verið orðaður við félög víðsvegar um álfuna síðustu vikur. Samningur hans við sænska félagið rennur út í lok árs og vill félagið selja hann í sumar í stað þess að missa hann frítt um áramótin.

Þýski miðillinn Liga 2 Online, sem er sérhæfður í fréttum af þýsku annarri deildinni, greinir frá því að Düsseldorf verði næsti áfangastaður íslenska varnarmannsins.

Valgeir verður þá liðsfélagi landsliðsfélaga síns Ísaks Bergmann Jóhannessonar en sá var á láni hjá þýska félaginu á síðustu leiktíð frá FC Kaupmannahöfn áður en Düsseldorf keypti Ísak í sumar.

Düsseldorf lenti í þriðja sæti þýsku B-deildarinnar í vor en tapaði á grátlegan máta, í vítakeppni, fyrir Bochum um sæti í efstu deild.

Valgeir verður 23 ára gamall í september og hefur leikið með Häcken frá árinu 2021. Hann er uppalinn hjá Fjölni og lék með Val 2019 til 2020. Hann vann Íslandsmeistaratitil með Val árið 2020 áður en hann hélt til Svíþjóðar og fagnaði sænska meistaratitlinum með Häcken 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×