Sport

Kallar Novak Djokovic Svart­höfða tennisheimsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic lét áhorfendur á Wimbledon mótinu heyra það, ekki sáttur með köll þeirra á meðan leiknum við Holger Rune stóð.
Novak Djokovic lét áhorfendur á Wimbledon mótinu heyra það, ekki sáttur með köll þeirra á meðan leiknum við Holger Rune stóð. Getty/Mike Hewitt

Tennisgoðsögnin John McEnroe er á því að serbneski tenniskappinn sé óumbeðið í hlutverki Svarthöfða í tennisheiminum.

Djokovic skaut fast á áhorfendur á Wimbledon mótinu eftir að hafa tryggt sér sæti í átta manna úrslitunum á dögunum.

Serbinn var mjög ósáttur með að áhorfendur voru að kalla nafn mótherjans í leiknum en hann var að keppa við Danann Holger Rune. Eftir leikinn sakaði hann áhorfendur um að sýna sér virðingarleysi.

McEnroe vinnur sem sérfræðingur við Wimbledon mótið en hann vann á sínum tíma sjö risamót þar af Wimbledon mótið þrisvar sinnum frá 1981 til 1984.

„Hann er eins og Svarthöfði [Darth Vader í Star Wars] þegar við berum hann saman við tvo af þeim glæsilegustu sem hafa spilað tennisíþróttina, þá Rafael Nadal og Roger Federer,“ sagði John McEnroe í útsendingu breska ríkisútvarpsins frá mótinu.

„Það er enginn sem stenst samanburð við þá út frá því hvað þeir hafa fært tennisíþróttinni. Svo kemur þessi gæi Djokovic og eyðileggur partýið,“ sagði McEnroe.

Djokovic hefur unnið flest risamót af öllum eða 24. Rafael Nadal hefur unnið 22 og fyrrum methafi, Roger Federer, er með tuttugu.

„Hann er sá sem hefur fengið mest að finna fyrir því og þessa vegna er hann sá besti sem hefur spilað þessa íþrótt. Það gæti verið að minnsta kosti hundrað leikir þar sem fólk hefur sýnt honum virðingarleysi vegna þess hversu góður hann er,“ sagði McEnroe.

„Hvað er svona slæmt við það sem hann hefur gert? Hann er keppnismaður eins og þeir gerast bestir. Er það útlitið eða hvaðan hann kemur,“ spurði McEnroe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×