Óvissa um stöðu City og United stafaði af því að UEFA leyfir ekki að fleiri en eitt félag sama eiganda geti tekið þátt í sömu keppni. Fótboltarekstur United er nú í höndum Ineos sem á einnig franska félagið Nice, og eigendur City eiga einnig spænska félagið Girona.
BREAKING: UEFA confirms Man Utd and Man City can play in same European competitions as sister clubs (Nice and Girona respectively) next season after "significant changes" to investments.
— Martyn Ziegler (@martynziegler) July 5, 2024
(as reported on @TimesSport at start of June..) pic.twitter.com/Keex2rJL1U
Fjármálaráð UEFA tilkynnti í dag að „umtalsverðar breytingar“ hefðu verið gerðar hjá Girona og Nice sem að „sannarlega heftu áhrif og ákvarðanavald eigenda“, eftir því sem fram kemur á vef BBC. Þá hafa hlutabréf verið færð af óháðum vörsluaðila í sjóð sem er undir eftirliti UEFA.
Til þess að sanna að United og City væru óháð Nice og Girona þurftu eigendurnir einnig að samþykkja að leikmenn færu ekki á milli félaganna frá júlí 2024 til september 2025.
Þetta þýðir að United getur ekki keypt franska varnarmanninn Jean-Clair Todibo frá Nice, en hann er metinn á 40 milljónir punda.
City fær hins vegar brasilíska kantmanninn Savio eins og til stóð. Hann var að láni frá Troyes til Girona en lánssamningurinn rann út 30. júní.
City mun spila í Meistaradeild Evrópu fjórtánda árið í röð en Girona tekur í fyrsta sinn þátt í keppninni eftir að hafa náð 3. sæti í spænsku deildinni á síðustu leiktíð.
United og Nice spila hins vegar í Evrópudeildinni eftir að Nice endaði í 5. sæti frönsku deildarinnar og United vann ensku bikarkeppnina.