Þetta kemur fram í frétt Verdens gang um málið en niðurstaða Héraðsdóms Óslóar hefur ekki verið kunngjörð opinberlega. Þar segir að dómurinn kveði á um að Matapour muni sitja inni í tuttugu ár hið minnsta. Almennt er 21 árs fangelsisvist hámarksrefsing í Noregi en samkvæmt nýlegum breytingum á hegningarlögum má dæma menn í allt að þrjátíu ára fangelsi fyrir hryðjuverk.
Þá er ekki loku fyrir það skotið að Matapour muni aldrei geta um frjálst höfuð strokið. Hann var dæmdur í svokallað forvaring, réttarfarsúrræði sem heimilar yfirvöldum að halda mönnum ótímabundið bak við lás og slá, séu þeir metnir hættulegir samfélaginu.
Þekktasta dæmið um slíkan dóm er dómurinn yfir Anders Behring Breivik, hryðjuverkamannsins sem framdi ódæðin í Útey.
Að því er segir í frétt VG hélt verjandi Matapours því fram að hann hefði ekki framið hryðjuverk, enda hefði hann ekki beint árásinni sérstaklega að hinsegin fólki, og að hann væri ósakhæfur sökum andlegra veikinda. Dómurinn hafi fallist á hvoruga málsástæði verjands.
Matapour hóf skothríð á skemmtistaðnum London pub, sem hefur um árabil verið samkomustaður hinsegin samfélagsins í Ósló, á meðan hinsegin vika Óslóar stóð sem hæst árið 2022. Tveir létu lífið og nítján særðust.