Atvikið átti sér stað eftir um sjötíu mínútna leik þegar Varga lenti í samstuði við skoska markmanninn Angus Gunn.

Varga var fluttur af velli með sjúkrabörum og lagður inn á spítala í kjölfarið. Þar hefur hann verið undanfarna daga og gekkst undir aðgerð á mánudag.
Liðsfélagar hans í ungverska landsliðinu brugðust vel við, þá sérstaklega fyrirliðinn Dominik Szoboszlai sem sótti sjálfur sjúkraliða. Liðsfélagarnir heimsóttu hann svo í gær.

Varga losnaði af spítala í morgun og ferðaðist strax aftur heim til Ungverjalands þar sem hann mun jafna sig. Hann mun ekki taka meira þátt á mótinu.
Ungverjaland á enn möguleika á því að komast í 16-liða úrslit. Það sem þeir þurfa að treysta á er að Tékkland nái ekki í stig í kvöld gegn Tyrklandi.