Þetta kemur fram í uppfærslu á miðlinum sem tók gildi í gær. Í tilkynningu sem blasir við notendum þegar þeir opna miðilinn eftir uppfærsluna kemur fram að breytingin sé til þess fallin að vernda einkalíf notenda.
Þá virðist að vonast sé til þess að notendur verði duglegri á „Like“- takkanum. „Með því að líka við fleiri færslur færðu fleiri færslur sem höfða til þín,“ stendur í tilkynningunni.
Breytingin er ein af fjölmörgum sem keyrðar hafa verið í gegn síðan auðjöfurinn Elon Musk festi kaup á samfélagsmiðlinum árið 2022. Auk þess sem hann hefur breytt bæði nafni og merki miðilsins hefur hann rukkað opinberar persónur fyrir bláa auðkenningarmerkið sem sannreynir að um þeirra aðgang ræði.