Gregg Ryder verður áfram starfandi aðalþjálfari karlaliðsins.
Starf Óskars verður meira skrifstofubundið og hann mun „veita þjálfurum og starfsmönnum deildarinnar faglega ráðgjöf og vinna að endurskipulagningu deildarinnar,” eftir því sem kemur fram í tilkynningu KR sem má sjá hér fyrir neðan.
Það er knattspyrnudeild KR sérlega ánægjulegt að tilkynna að Óskar Hrafn Þorvaldssonar hefur verið ráðinn til starfa hjá deildinni.
— KR Reykjavik FC (@KRreykjavik) June 10, 2024
Óskar mun m.a. veita þjálfurum og starfsmönnum deildarinnar faglega ráðgjöf og vinna að endurskipulagningu deildarinnar.
Vertu velkominn Óskar!🖤🤍 pic.twitter.com/R3VdKWmbgY
Óskar er uppalinn KR-ingur og þjálfaði yngri flokka hjá félaginu áður en hann varð aðalþjálfari Gróttu. Þaðan fór hann til Breiðabliks og stýrði liðinu að Íslandsmeistaratitlinum 2022. Eftir að hafa komið Blikum í Sambandsdeild Evrópu á síðasta ári ákvað hann að taka við Haugesund í Noregi. Hann vildi vera hjá Breiðabliki þar til þátttöku þeirra í Sambandsdeildinni lyki en var gert að láta strax af störfum.
Tíminn hjá Haugesund var afskaplega stuttur og Óskar sagði sjálfur upp störfum þar fyrir akkúrat mánuði síðan. Getgátur um framtíð hans virtust flestar beinast til KR og það varð niðurstaðan.
Óskar hefur störf hjá deildinni strax, en fyrstu vikurnar verður hann í hlutastarfi þar sem hann verður í verkefnum tengdum sjónvarpsvinnu á leikjum á EM í fótbolta.