Höskuldur svarar grein Sigríðar Hagalín Björnsdóttur fréttamanns og rithöfundar en hún skrifaði grein sem fór á mikið flug en þar vill hún rísa til varnar því sem kallað hefur verið kynhlutleysi í notkun tungumálsins. Höskuldur segir slíka ekki bjóða upp á neitt sem hald er í og vilji í raun ganga í berhögg við máltilfinningu sem á sér langa sögu.
Tvíþættur miskilningur
Höskuldur segir að í grein Sigríðar gæti tvíþætts misskilnings.
„Fyrra atriðið snýr að því hvað málfræðingar fást við og til hvers. Sigríður nefnir til dæmis Fyrsta málfræðinginn, sem mun hafa verið uppi á 12. öld. Hann fann sig knúinn til þess að „setja Íslendingum stafróf“, eins og hann kallaði það, þ.e. gera tillögu um það hvernig æskilegt væri að skrifa íslensku þannig að skiljanlegt væri,“ segir Höskuldur.
Fyrsti málfræðingurinn vann verk sem má heita á heimsmælikvarða en hann hafi ekki síður verið „lýsandi málfræðingur“ en „vísandi“.
Og í öðru lagi hafi Sigríður viljað taka upp hanskann fyrir samstarfsfólk sitt á Ríkisútvarpinu sem eru mjög áfram um að notað sé kynhlutlaust mál. Höskuldur segir þau á villigötum og hafi í raun ekki gaumgæft að neinu viti afleiðingarnar. Og tekur dæmi.
Hverjir slösuðust í þessum árekstri?
„… þegar Ævar Örn Jósepsson hjá Ríkisútvarpinu skrifar frétt og segir Fjögur slösuðust í hörðum árekstri þá getur vel verið að hann sé að nota hvorugkynsmyndina fjögur í almennri merkingu og viti ekkert um fólkið. Sigríður Hagalín myndi hins vegar ekki skrifa Fjögur slösuðust ... nema hún vissi að þetta hefðu ekki bara verið konur og ekki bara karlar.
Aftur á móti myndi Ævar Örn væntanlega ekki skrifa Fjórir slösuðust ... nema hann vissi að eingöngu hefði verið um karla að ræða. Sigríður Hagalín myndi hins vegar nota karlkynið þarna þótt hún vissi ekkert um fólkið nema fjölda hinna slösuðu,“ skrifar Höskuldur.
Og málfræðingurinn heldur áfram og víkur að alþingismönnum, líklega myndi Þórhildur Sunna nota þetta eins og Ævar Örn, en ekki sé vitað hvað Katrín Jakobsdóttir átti við með svona orðalagi undanfarin ár af því að hún hefur sagst nota hvorugkyn og karlkyn á víxl eða til skiptis í svona samhengi.
„Að þessu leyti eru þessi tilbrigði allt annars eðlis en annar breytileiki í málinu, enda tilbúin af pólitískum ástæðum og ekki sjálfsprottin eins og áður var nefnt. Þetta gerir þau erfiðari viðfangs en nokkur önnur tilbrigði fyrir börn á máltökuskeiði og aðflutta málnotendur. Og það er líka þess vegna sem fólk sem fæst við að kenna aðkomnum íslensku kvartar yfir þessum tilraunum.“