Þingið dró sig í hlé til að gefa forsetakosningunum svigrúm en Þorbjörg segir í ræðu sinni að þau rólegheit hafi verið algjört „svikalogn“ því ríkisstjórnarsamstarfið hangi á bláþræði líkt og hún komst að orði.
Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi formaður VG, sagði, eins og frægt er orðið, af sér embætti forsætisráðherra til að blanda sér í forsetaslaginn en Halla Tómasdóttir sigraði kosningarnar um liðna helgi.
„Hafi einhver verið í vafa um það hvort tengsl væru á milli forsetakosninga og ríkisstjórnarsamstarfsins blasir svarið við núna þegar við komum til baka inn í þingið. Hér er bókstaflega hægt að skera loftið eftir úrslitin.“ Þorbjörg Sigríður lýsti andrúmsloftinu í þinginu með þessum hætti í ræðu sinni.
RÚV greindi í gærkvöldi frá niðurstöðu könnunar á fylgi stjórnmálaflokkanna sem sýndi að Vinstri hreyfingin-grænt framboð væri með 3,3 prósent fylgi og myndi þannig ekki komast inn á þing ef þetta væri niðurstaða alþingiskosninga.
Segir VG leita að leið út
Þorbjörg sagði þetta endurspeglast í samskiptum stjórnarflokkanna og að VG leiti nú að tilefni til að yfirgefa samstarfið.
„Við finnum líka að að minnsta kosti einn ríkisstjórnarflokkanna er núna farinn að þefa uppi móðganir og tilefni til að sprengja ríkisstjórnarsamstarfið. VG situr kannski við ríkisstjórnarborðið og skoðar það hvort servíéttubrotið sé rangt.“
Útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra var afgreitt út úr allsherjar- og menntamálanefnd í morgun en Þorbjörg segir í stað umræðu um hvaða mál verði hægt að klára þurfi þingmenn að horfast í augu við að mun stærri pólitísk spurning sé um hvort ríkisstjórnin muni „klára sig sjálfa“ á fyrstu dögum júní mánaðar.