Skoðun

Ég kýs femín­ista á Bessa­staði

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar

Ég fagna framboði Katrínar Jakobsdóttur til forseta og styð hana með ráðum og dáð. Ástæðan er sú að Katrín stendur fyrir þau gildi sem skipta mig máli. Hún er gallharður femínisti sem leggur áherslu á mannréttindi, lýðræði og friðsamlegar lausnir.

Sem femínisti hefur Katrín sýnt það með verkum sínum að hún fylgir eftir málefnum sem skipta máli fyrir frelsi og sjálfstæði kvenna og hinsegin fólks sem hefur iðulega kallað á talsverða baráttu til að ná fram. Dæmin eru fjölmörg og má þar nefna framsækna þungunarrofslöggjöf, löggjöf um kynferðislega friðhelgi og umsáturseinelti auk stórbættrar réttarstöðu brotaþola í kynferðisofbeldismálum. Nýlega var tilkynnt að Ísland hafi tekið stökk á Regnbogakorti ILGA og er nú í öðru sæti ásamt því að vera í efsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu sem er afrakstur breytinga á lagalegum réttindum hinsegin fólks.

Í tengslum við gerð kjarasamninga hefur Katrín líka dregið vagninn varðandi mál sem varða konur á vinnumarkaði miklu eins og lengingu fæðingarorlofs og hækkun á greiðslum, styttingu vinnuvikunnar og endurmat á virði kvennastarfa. Þá vakti stuðningur og þátttaka Katrínar í Kvennaverkfallinu síðastliðið haust heimsathygli.

Það hefur vakið athygli að flest sem hafa unnið með Katrínu styðja framboð hennar. Það þarf ekki að koma að óvart enda er hún einstök í viðkynningu, afburðagreind, setur sig inn í mál af dýpt og er fylgin sannfæringu sinni en tilbúin til málamiðlana þegar nauðsyn krefur. Hún hefur einstakt lag á að vinna með fólki úr ólíkum áttum, er hlý, skemmtileg og hörkudugleg. Katrín nýtur líka sterkrar stöðu á alþjóðavettvangi og þar mun hún tryggja að rödd Íslands heyrist og tala fyrir þeim áherslum sem skipta máli fyrir friðsamleg velferðarsamfélög.

Fyrir mig vegur þyngst á metunum þær femínísku áherslur sem hún stendur fyrir. Þess vegna mun ég kjósa Katrínu í forsetakjörinu 1. júní nk.

Höfundur er hagfræðingur BSRB.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×