Var þetta annar 1-0 sigur Silkeborgar á AGF á stuttum tíma þar sem liðin mættust í bikarúrslitum fyrir ekki svo löngu síðan. Þar skoraði Stefán Teitur einnig en það mark var dæmt af á meðan mark dagsins stóð og tryggði Silkeborg sigur.
Stefán Teitur var í byrjunarliði gestanna í kvöld og Mikael Anderson var í byrjunarliði AGF. Líkt og í bikarúrslitunum var ekki mikið um opið marktækifæri og staðan markalaus í hálfleik.
Það var strax á annarri mínútu síðari hálfleiks sem hinn 25 ára gamli Stefán Teitur skoraði það sem reyndist sigurmarkið eftir undirbúning Callum McCowatt. Var þetta 11. mark Skagamannsins á tímabilinu.
Hann var svo tekinn af velli á 65. mínútu en Mikael lék allan leikinn í liði AGF sem tókst ekki að jafna metin og lauk leiknum með 1-0 sigri Silkeborg.
Silkeborg er sem stendur í 6. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 35 stig, þremur minna en AGF sem er sæti ofar.