Þetta kemur fram í svari frá embætti ríkislögreglustjóra um brottvísun þriggja nígerískra kvenna sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðustu daga. Fram kemur í svarinu að flogið hafi verið með fólkið til Frankfurt í Þýskalandi þar sem þau sameinuðust stærri aðgerð Frontex, Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, sem nú er á leið til Nígeríu.
Konurnar þrjár sem flogið var með í gær heita Ester, Mary og Blessing og höfðu verið á landinu í um fjögur til sex ár. Allar höfðu þær greint frá því að vera þolendur mansals. Ekki er vitað hver karlmaðurinn var sem var með þeim í för.
Vildu ekki fresta af heilsufarsástæðum
Fjallað hefur verið ítarlega um málið síðustu daga en Blessing Uzoma Newton er með æxli í kviðarholi og hafði lögmaður hennar, Helgi Þorsteinsson Silva, óskað eftir frestun brottvísunar af heilsufarsástæðum. Útlendingastofnun varð ekki við þeirri beiðni í gær og fór brottvísun fram þegar gæsluvarðhaldsúrskurður kvennanna þriggja rann út í gær.
Brottvísun þeirra var mótmælt á Keflavíkurflugvelli í gær. Þar komu saman um fimmtán til tuttugu manns frá samtökunum No Borders. Ragnheiður Freyja Kristínardóttir var á mótmælunum og sagði við fréttastofu í gær að þótt svo að þau myndu ekki stöðva brottvísun vildu þau ekki að hún færi fram í þögn.