Skoðun

Riðið á Bessa­stöðum?

Guðmunda G. Guðmundsdóttir skrifar

Hugleiðingar fólks eru allskonar varðandi komandi kosningar á nýjum forseta, spurningarnar sem fólki dettur í hug að spyrja alveg með ólíkindum margar hverjar og stór spurning hvernig fólki dettur öll þessi vitleysa í hug, hvað þá að spyrja.

Fólk skrifar pistla og greinar, mis gáfulegar, um sínar hugleiðingar á frambjóðendunum og fylgdarliði.

En spurningin sem virðist hafa tröllriðið öllu er „ætlið þið að ríða á Bessastöðum“?

Ég ætla rétt að vona að það sé ekki verið að leggja til að forsetinn og maki hans lifi skírlífi þau ár sem hann verður í embætti.

Svo við getum gert ráð fyrir að það verði kysst, faðmað, knúsað, kelað, kúrt og riðið já riðið á Bessastöðum.

Kæru forsetaframbjóðendur segið okkur fyrir hvað þið standið, hættið að níða aðra og væla yfir öðrum, þá fáið þið kannski að ríða á Bessastöðum því það er jú það sem allt snýst um er það ekki?

Ólafur Ragnar Grímsson fannst gaman að ríða og fór oft í útreiðartúra, og féll af hestbaki þar sem hann var í reiðtúr með Dorrit vinkonu sinni í Húnaþingi í september 1999 eins og frægt varð. En það er allt önnur saga.

Kjósendur veljið ykkar forseta málefnalega, ekki eftir því hvað aðrir segja eða finnst um þau, forðist alla fordóma og sleggjudóma, Kjósið þann glæsilegasta, virðulegasta, málefnalegasta, glaðlegasta eða hvað ykkur finnst að forseti þurfi til að bera, verið sjálfum ykkur samkvæm og heiðarleg.

En umfram allt kjósið, nýtið kosningaréttinn. Þá getið þið haft áhrif á hver fái að ríða á Bessastöðum.

Höfundur er kjósandi á Hvolsvelli.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×