Í umfjöllun Sky fréttastofunnar kemur fram að leikarinn hafi tekið þá ákvörðun til þess að hann gæti borðað minna af unnum matvælum. Hann segir að hann hafi ávallt kunnað að meta grænmetisfæði en ýmsir kostir sem komi í stað kjöts séu afar mikið unnir.
„Ég er að reyna að borða minna af unnum matvælum,“ segir leikarinn. Hann vísar til þess að nýlegar rannsóknir bendi til þess að unnar matvörur geti aukið líkurnar á hinum ýmsu sjúkdómum sem tengjast hjarta-og æðakerfinu.
Þess er getið í umfjöllun Sky að rannsóknirnar bendi þó til þess að ýmsar grænmetislausnir falli ekki beint undir flokk sem unnar matvörur, það sé mismunandi á milli tegunda matvælanna og framleiðenda. Martin segir að hann hafi ekki fyrr en á síðustu mánuðum farið að prófa sig áfram og borða kjöt á nýjan leik eftir 38 ára hlé.