In shape námskeiðin sem Gerða kenndi í World Class nutu gríðarlegra vinsælda síðastliðin ár, þá sérstaklega hjá samfélagsmiðlastjörnum landsins. Gerða byggði upp stórt samfélag kvenna sem í dag styðja hver aðra og hvetja áfram með því sameiginlega markmiði að hlúa að líkama og sál.
Síðastliðið haust ákvað Gerða að breyta til og segja skilið við þjálfunina vegna aðgerðar sem hún þurfti að gangast undir eftir meðgöngur. Hún segir það hafi verið erfiða ákvörðun að stíga til hliðar.
„Ég er búin að vera í löngu bataferli eftir kviðaðgerð sem ég fór í síðastliðinn desember og hef því þurft að einblína á aðrar hliðar tengdar heilsu en bara æfingar. Það hefur verið dásamleg gjöf að fá að bremsa sig aðeins af, slaka á og endurskoða lífið. Ég fór til dæmis að kynna mér betur endurhæfingu, hormónakerfi kvenna, mataræði og svefn sem skiptir okkur svo gríðarlegu máli og er mikilvæg forsenda heilsu og vellíðunar, þannig hlöðum við batteríin,“ segir Gerða í samtali við Vísi.

Alhliða heilsa kvenna í aðalhlutverki
Að sögn Gerður er stefna INSHAPE vörumerkisins á alhliða heilsu.
„Síðan var opnuð með tónheilun í boði Völu Gestsdóttur og í leiðinni kynnt nýja inshape varan sem er silki svefngríma. Ég fékk þá hugmynd um að nota vinkonur mínar sem módel fyrir síðuna sem sýnir fram á það að Inshape er ekki bara ég heldur samfélag kvenna sem styðja og styrkja hvor aðra með það að markmiði að hlúa að líkama og sál,“ segir Gerða í samtali við Vísi.
Gestir viðburðarins voru vinkonur Gerðu og fastagestir INSHAPE tímanna. Má þar nefna þær Andreu Magnúsdóttur, Elísabet Gunnarsdóttur, Pöttra Sriyanonge, Heiði Ósk Eggertsdóttur og Tinnu Aðalbjörnsdóttur.
Elísabet Blöndal var með myndavélina á lofti og myndaði stemninguna á viðburðinum.



















