Frá þessu greinir Vestri í tilkynningu á samfélagsmiðlum en meiðslin má rekja til atviks í seinni hálfleik í leik Vestra við HK í Bestu deildinni í gær en Eiður Aron fékk þá þungt högg á ristina, reyndi að halda leik áfram, en þurfti svo að fara af velli. Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.
„Okkur þykir leitt að tilkynna að varnarmaðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson er ristarbrotinn eftir grófa tæklingu í leik liðsins gegn HK í gær. Áætlað er að endurhæfingin taki allt að 12 vikur. Við sendum batakveðjur á Eið og hlökkum til að sjá hann á vellinum seinnipart móts,“ segir í tilkynningu Vestra.
Áfall fyrir Vestramenn sem hafa sótt sex stig úr fyrstu fjórum leikjum sínum sem nýliðar í Bestu deildinni og þá hefur Eiður Aron verið öflugur í vörn liðsins.
Fyrir hafði danski miðvörðurinn Morten Ohlsen meiðst í fyrstu umferð gegn Fram og því stór skörð höggvin í vörn Vestramanna.
Vestri á næst leik gegn FH í Bestu deildinni um komandi helgi.