Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hún segir málið í höndum aðgerðastjórnar á svæðinu og að vel verði fylgst með tungunni. Varnargarðurinn sem um ræðir er varnargarður L12 sem liggur norðaustan við Grindavíkurbæ.

Enn mallar í gígnum að sögn Lovísu og staðan að mestu leyti óbreytt. Full virkni er á svæðinu og ekkert bendir til þess að gosið hætti í bráð. Meiri óvissa er þó um framhaldið vegna þess að landris mælist þrátt fyrir að gos standi yfir sem hefur ekki sést á svæðinu áður.
„Það er möguleiki sem við erum að horfa á að það gæti opnast sprunga án mikillar skjálftavirkni,“ segir Lovísa og brýnir til fólks að fara ekki að gosstöðvunum.

