Þetta kemur fram í tilkynningum Play til Kauphallar um viðskipti félaga tengdum meðlimum stjórnar Fly Play hf. með bréf félagsins. Þar segir að um sé að ræða þátttöku í hlutafjárútboði félagsins.
Einar Örn Ólafsson, sem lét nýverið af stjórnarformennsku í Play og gerðist forstjóri, var stórtækastur í útboðinu. Gnitanes ehf. keypti hluti fyrir 250 milljónir króna en Einar Örn er stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og hluthafi í Gnitanesi. Einir ehf., sem Einar Örn á í heild sinni, keypti sömuleiðis fyrir 250 milljónir króna.
Fea ehf., sem er í eigu Elíasar Skúla Skúlasonar, stjórnarformanns Play, keypti fyrir 300 milljónir króna. Rea ehf. keypti fyrir 150 milljónir króna en Elías Skúli er stjórnarformaður og hluthafi í félaginu.
Loks var það KG eignarhald ehf. sem keypti fyrir 36 milljónir króna. Eiginmaður Guðnýjar Hansdóttur, stjórnarmanns í Play, á KG eignarhald.