Skoðun

Hvers vegna styð ég Baldur?

Margrét S. Björnsdóttir skrifar

Ég starfaði með Baldri Þórhallssyni í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands í nær tvo áratugi. Þar kynntist ég Baldri og mannkostum hans vel, en hann er heilsteyptur, góðviljaður og hefur ríka réttlætiskennd eins og sést á ýmsum þeim málefnum sem hann vill leggja áherslu á, verði hann kjörinn forseti.

Baldur er auk þess afar vel að sér í íslenskum stjórn- og þjóðmálum, alþjóðastjórnmálum og sögu Íslands, sem er mikilvægt þegar kemur að embætti forseta Íslands. Þá er hann fyrirmyndar samstarfsmaður, sinnir starfi sínu mjög vel, og hlaut fyrir störf sín sérstaka viðurkenningu Háskóla Íslands á síðasta vetri.

Hann er ekki bara afar vinsæll kennari, heldur hefur Baldur sýnt mikinn metnað fyrir hönd stjórnmálafræðideildar og lagt sitt af mörkum til sameiginlegra markmiða og uppbyggingar deildarinnar.

Eins og fram kemur í frétt á vef Háskóla Íslands, sem vísað er í hér að ofan og rituð var í tilefni áðurnefndrar starfsviðurkenningar, hefur Baldur náð miklum árangri á því sviði stjórnmálafræðinnar sem hann hefur helgað sínar rannsóknir og um það segir m.a.:

„Baldur er í dag einn af fremstu fræðimönnum á sviði smáríkjafræða (e. small state studies) og hefur birt tugi greina í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum, auk þess að skrifa og ritstýra nokkrum bókum sem fjalla um efnið.“

Þá segir enn fremur að hann hafi ætíð lagt ríka áherslu á að taka Ísland inn í rannsóknir sínar um smáríki í alþjóðasamfélaginu og lagt mikið af mörkum til rannsókna á utanríkisstefnu Íslands. -Reynsla og þekking sem mun nýtast vel, nái hann kjöri sem næsti forseti lýðveldisins. Einnig er bent á að Baldur hafi gefið tugum nemenda Háskóla Íslands tækifæri til að stunda rannsóknir með því að ráða þá sem aðstoðarmenn og stofnað Rannsóknasetur um smáríki (e. Centre for Small State Studies) árið 2002 - en setrið hefur orðið eitt af lykil rannsóknasetrum á sviði smáríkjafræða og fengið ótal erlenda styrki og viðkenningar fyrir rannsóknir og kennslu.

Baldur yrði alþýðlegur og farsæll forseti sem við værum stolt af - og ekki skemmir Felix Bergsson fyrir, lífsförunautur Baldurs.

Höfundur er fv. forstöðumaður og aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×