Íslenski boltinn

Gylfi dýrastur í nýjum fantasy-leik

Sindri Sverrisson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson spilar sína fyrstu leiktíð á Íslandi í sumar, eftir langan feril sem atvinnumaður erlendis.
Gylfi Þór Sigurðsson spilar sína fyrstu leiktíð á Íslandi í sumar, eftir langan feril sem atvinnumaður erlendis. vísir/Hulda Margrét

ÍTF, hagsmunasamtök félaganna í efstu deildum Íslands í fótbolta, hafa opnað fyrir skráningu í draumadeildarleik sem tengist Bestu deild karla í fótbolta.

Keppni í Bestu deildinni hefst á laugardaginn þegar Víkingur mætir Stjörnunni. Fjórir leikir eru svo á sunnudaginn og fyrstu umferð lýkur með leik Breiðabliks og FH á mánudagskvöld.

Aðdáendur Bestu deildarinnar geta núna skráð sig í fantasy-leik sem finna má á slóðinni fantasy.bestadeildin.is.

Það kemur kannski ekki mjög á óvart hver skipar efsta sætið á listanum yfir dýrustu leikmenn í leiknum, en það er Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður Vals. 

Gylfi er metinn á 14 milljónir króna en notendur fá 100 milljónir til leikmannakaupa og þurfa að versla ellefu leikmenn fyrir þá upphæð.

Höskuldur og Ingvar dýrastir í sinni stöðu

Næstu menn á eftir Gylfa á verðlistanum eru tveir KA-menn, þeir Hallgrímur Mar Steingrímsson og Viðar Örn Kjartansson sem líkt og Gylfi er nýkominn heim eftir langan atvinnumannaferil erlendis. Tryggvi Hrafn Haraldsson, félagi Gylfa í Val, er svo fjórði dýrastur á 13 milljónir. 

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, er langdýrasti varnarmaður leiksins, á 12,5 milljónir, en Valsarinn Birkir Már Sævarsson kemur þar næstur á 9,5 milljónir. 

Af markvörðum er Víkingurinn Ingvar Jónsson dýrastur, á 7,5 milljónir, en Árni Snær Ólafsson úr Stjörnunni og Frederik Schram úr Val næstir á 7 milljónir.

Fantasy-leikinn má finna með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×