Samkvæmt breska miðlinum Mirror reyndi að minnsta kosti einn starfsmaður að ná í gögn prinsessunnar þegar hún lá inni á sjúkrahúsinu til að gangast undir aðgerð á kviðarholi fyrr á árinu.
Yfirmenn London Clinic eru sagðir hafa sett sig í samband við Kensington höll um leið og málið kom upp og fullvissað starfsmenn Katrínar og Vilhjálms eiginmanns hennar um að málið yrði rannsakað ofan í kjölinn.
Búið er að tilkynna málið til yfirvalda.
Kensington höll segir málið í höndum London Clinic.

Þegar greint var frá því að Katrín myndi gangast undir aðgerð á kviðarholi fylgdi það sögunni að nánari upplýsingar yrðu ekki gefnar upp, fyrir utan að ekki væri um að ræða aðgerð vegna krabbameins.
Heilsufarsupplýsingar prinsessunnar væru einkamál og að ákvörðunin um að deila ekki smáatriðum væri meðal annars tekin til að vernda börnin hennar. Á svipuðum tíma var hins vegar greint frá því að Karl III Bretakonungur hefði greinst með krabbamein þegar hann gekkst undir aðgerð vegna stækkaðs blöðruhálskirtils.
Miklar vangaveltur fóru af stað vegna þess hve langan tíma prinsessunni var ætlað að jafna sig en hún gekkst undir aðgerðina í janúar og var sögð myndu snúa aftur til starfa eftir páska. Síðan hafa samsæriskenningar grasserað og margir gert því skóna að málið sé mun alvarlega en gefið hefur verið upp; Katrín sé alvarlega veik, jafnvel dáin, eða að hjónaband þeirra Vilhjálms standi á brauðfótum, svo eitthvað sé nefnt.
Mögulega hafa menn náð áttum á ný eftir að myndir náðust af prinsessunni á markaði nærri heimili þeirra í Windsor í vikunni og þá hefur Times greint frá því að Katrín muni ganga til kirkju á Páskadag.