Hrauntungan norðan við Svartsengi á eftir um það bil 100 metra að Njarðvíkuræðinni. Víðir Reynisson, sviðstjóri almannavarna segist telja að búið sé að gera það sem hægt sé að gera til að verja lagnir í jörðu og háspennulínu.
„Ef hrauntungan sem rennur í átt að Njarðvíkuræðinni hegðar sér eins og hún hefur gert síðustu klukkustundirnar er það jákvætt, hún virðist meira vera að dreifa úr sér frekar en sækja fram. Lögnin er varin og HS orka er tilbúin til að setja kaldara vatn eftir lögnina til að verja sig og þoli það að komi á hana þungi og hiti.“
Víðir segir hrauntunguna fara hægt yfir og einmitt núna sé lítil hreyfing á henni.
„En sunnanmegin er farið að skríða fram hraun úr hrauntjörn. Það fer ekki mjög hratt í augnablikinu og við erum að vonast eftir að það verði áfram þannig. Við erum við öllu búin, en það eru 400 til 450 metrar frá fremstu tungunni þaðan og að Suðurstrandaveginum.“
Hætta á gufusprengingum og gasmengun
Ef hraunið nær Suðurstrandarvegi segir Víðir þá stöðu upp komna að aðeins sé ein fær leið inn í Grindavík. Auk þess er hætta er á gufusprengingum og hugsanlegri gasmengun ef hraun nær út í sjó.
Veðrið hjálpar til við slíkar ástæður, vindur og úrkoma verður til þess að það dreifist mjög hratt úr og ekki stafi hætta af, nema staðbundin.
Ekki er hægt að spá fyrir um hvenær hraunið næði út í sjó, ef það gerist. Víðir segir að í gærkvöldi hafi hraun safnast saman í svolítinn tíma við Grindavíkurveg en þegar það fór af stað hafi það farið mjög hratt yfir en hægt svo aftur á sér.
„Það er þannig atburðarrás sem við erum að sjá aftur og aftur. Það myndast tjarnir og svo rennur hratt úr þessu. Svo það er ómögulegt að segja en við fylgjumst vel og vonumst að það fari að hægja á gosinu. Það hefur svo sem lítið breyst í morgun, það er töluvert hraunrennsli ennþá, það er augljóst,“ segir Víðir Reynisson sviðstjóri almannavarna.