Saminganefndirnar mæta í Karphúsið upp úr hádegi til að leggja lokahönd á samninginn. Samningurinn byggður á sömu forsendum og fjögurra ára samningur Starfsgreinasambandsins, Eflingar og Samiðnar við Samtök atvinnulífsins sem var undirritaður í Karphúsinu í fyrradag.
Samningur breiðfylkingarinnar kveður meðal annars um 3,25 prósent launahækkanir á þessu ári en 3,5 prósent á næstu þremur þar á eftir. Auk þess verður lágmarksorlof 25 dagar hafi starfsmaður unnið í hálft ár hjá sama fyrirtæki og náð 22 ára aldri. Eftir fimm ár verða orlofsdagarnir 28.
Þá verður desemberuppbót 106 þúsund krónur á þessu ári og hækkar um tólf þúsund á samningstímanum. Orlofsuppbót tekur svipuðum breytingum og hækkar um sex þúsund krónur á samningstímanum.
Uppfært klukkan 14:22
Fréttamaður okkar Elísabet Inga Sigurðardóttir er í Borgartúni þar sem allt er að verða klárt fyrir undirritun. Vöfflujárnið er komið í samband og bros á andlitum.