Fótbolti

Dortmund komst á HM án þess að spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Borussia Dortmund fagna sigri í þýsku deildinni en ekki er vitað hvort þeir hafi haldið sérstaklega upp á sætið í HM félagsliða í gær.
Borussia Dortmund fagna sigri í þýsku deildinni en ekki er vitað hvort þeir hafi haldið sérstaklega upp á sætið í HM félagsliða í gær. Getty/Sebastian El-Saqqa

Borussia Dortmund tryggði sér í gær sæti í næstu heimsmeistarakeppni félagsliða þrátt fyrir að vera ekki að spila.

Þýska liðið RB Leipzig féll nefnilega út úr Meistaradeildinni í gærkvöldi því 1-1 jafntefli á móti Real Madrid dugði liðinu ekki. Það voru góðar fréttir fyrir Dortmund.

Þetta þýðir að Leipzig getur ekki komist upp fyrir Dortmund í styrkleikaröð UEFA og því endanlega staðfest að Dortmund verður annað þýska félagið til að tryggja sér sæti í nýju stóru heimsmeistarakeppni félagsliða.

Úrslitin hjá Dortmund á móti PSV Eindhoven í þeirra leik í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar skipta því ekki lengur máli. Þýska liðið Bayern München var þegar búið að tryggja sér sæti í heimsmeistarakeppninni.

Hin nýja heimsmeistarakeppni félagsliða fer fram árið 2025 en hún telur hér eftir 32 lið. Tólf af þeim koma frá Evrópu, sex frá Suður-Ameríku, fjögur frá Afríku, fjögur frá Asíu, fjögur frá Norður- og Mið-Ameríku og loks eitt frá Eyjaálfu auk þess að gestgjafarnir fá að vera með eitt lið.

Manchester City, Chelsea, Real Madrid og Paris Saint-Germain eru meðal þeirra tuttugu félaga sem hafa tryggt sig inn.

Fyrsta keppnin fer fram í Bandaríkjunum og fer hún fram fá 15. júní til 13. júlí 2025.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×