Vakthafandi hjá lögreglunni á Suðurlandi segir að rannsókn á eldsupptökum muni hefjast að slökkvistarfi loknu.
Húsið var gamalt og verið var að gera það upp. Tilkynning berst frá nágranna sem sér eldinn og vekur mennina sem sváfu í bílskúrnum. Mennirnir komust út heilir á húfi en húsið er gjörónýtt.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, segir í samtali við fréttastofu að töluverðan tíma hafi tekið slökkviliðið að koma á vettvang vegna þess að ófært var upp að húsinu.
„Það þurfti að hringja á næsta bæ og fá traktor til þess að ryðja fyrir slökkviliðinu. Það eru boðaðar út tvær stöðvar frá Brunavörnum Árnessýslu. Það er slökkvistöðin okkar sem er á Flúðum og önnur frá Reykholti,“ segir Pétur.

Húsið stendur enn en er gjörónýtt. Slökkvistarf heldur áfram þar sem ekki er hægt að slökkva í öllum glæðum á meðan rafstraumur er enn á í rústunum. „Það er búið að vera að bíða eftir starfsmönnum Rarik til þess að taka rafmagn af,“ segir Pétur.
„Starf slökkviliðsmanna er stundum misskilið. Þegar maður segir slökkvistarf gekk vel, allt brann. En starf slökkviliðsmanna gekk vel,“ bætir hann við.