Á kortinu eru helstu breytingarnar þær að svæði 3 (Sýlingarfell – Hagafell) fer upp í rautt (mikil hætta), svæði 2 og 6 fara upp í appelsínugult (töluverð hætta). Grindavík helst óbreytt (svæði 4).
Í tilkynningu segir að heildarhættumat fyrir hvert svæði byggi á samanlögðu mati á sjö tegundum af hættu sem er til staðar eða gæti skapast innan svæðanna. Litur svæða endurspeglar þannig heildarhættu innan svæðanna. Í listanum á kortinu sem sýnir hættur innan svæða, er eingöngu talin upp hætta sem metin er „töluverð“, „mikil“ eða „mjög mikil“ innan hvers svæðis. Sú hætta sem metin er „mikil“ eða „mjög mikil“ er feitletruð.
Í tilkynningu Veðurstofunnar kom einnig fram að kvikumagn hafi náð svipuðu rímmáli í kvikuhólfi við Svartsengi og fyrir eldgosið þann 14. Janúar og að líkurnar á eldgosi og kvikuhlaupi hafi aukist verulega. Fyrirvari á gosinu verður líklega ekki langur. Búast má við aukinni smáskjálftavirkni og er líklegast að fyrirvari verði í það minnsta ein klukkustund í aðdraganda eldgoss sem lang líklegast mun rata í farveg kvikugangsins sem myndaðist 10. nóvember síðastliðinn.
Jarðskjálftavirkni hefur verið svipuð síðustu viku. Síðustu sjö daga hafa tæplega 200 jarðskjálftar mælst yfir kvikuganginum. Flestir skjálftanna voru smáskjálftar, undir 1,0 að stærð, á tveggja til fimm kílómetra dýpi á svæðinu frá Stóra-Skógfelli í norðri og skammt suður fyrir Hagafell. Stærsti jarðskjálftinn mældist 1,8 að stærð staðsettur tæpan kílómeter sunnan við Hagafell.