Enski boltinn

Hákon á leið til Brentford

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hákon Rafn Valdimarsson var valinn besti markvörður sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.
Hákon Rafn Valdimarsson var valinn besti markvörður sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. getty/Alex Nicodim

Elfsborg hefur samþykkt kauptilboð enska úrvalsdeildarliðsins Brentford í íslenska landsliðsmarkvörðinn Hákon Rafn Valdimarsson.

Mike McGrath, blaðamaður á Daily Telegraph, greinir frá þessu í morgun og segir að Hákon sé á leið til Brentford.

Hákon er eftirsóttur eftir frábæra frammistöðu með Elfsborg á síðasta tímabili. Hann var þá valinn besti markvörður sænsku úrvalsdeildarinnar.

Í síðustu viku greindi fótboltavéfréttin Fabrizio Romano frá því að bæði Aston Villa og FC Kaupmannahöfn hefðu boðið í Hákon. Samkvæmt heimildum Romanos var kauptilboð Villa hærra, eða í kringum tvær milljónir evra.

Hákon, sem er 22 ára, gekk í raðir Elfsborg frá Gróttu 2021. Hann hefur leikið 48 deildarleiki fyrir sænska liðið.

Hákon hefur spilað sjö leiki fyrir íslenska A-landsliðið auk tíu leikja fyrir yngri landsliðin.

Hollendingurinn Mark Flekken hefur verið aðalmarkvörður Brentford á þessu tímabili, eftir að Spánverjinn David Raya var lánaður til Arsenal. Brentford er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×