Fótbolti

De Rossi snýr aftur heim og tekur við Roma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daniele De Rossi er talinn einn besti leikmaður í sögu Roma.
Daniele De Rossi er talinn einn besti leikmaður í sögu Roma. getty/Paolo Bruno

Daniele De Rossi hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Roma út tímabilið. Hann tekur við af José Mourinho sem var rekinn í morgun.

Roma staðfesti ráðninguna á De Rossi í hádeginu. Hann er þar boðinn velkominn aftur heim en De Rossi er goðsögn hjá félaginu.

De Rossi lék með Roma á árunum 2001-19, alls 616 leiki en hann er næstleikjahæstur í sögu félagsins á eftir Francesco Totti. De Rossi lék svo um skamma hríð með Boca Juniors í Argentínu áður en hann lagði skóna á hilluna 2020.

De Rossi var í þjálfarateymi Ítala sem urðu Evrópumeistarar 2021 og tók svo við SPAL í október 2022. Hann var rekinn þaðan í febrúar í fyrra og hefur ekki þjálfað síðan.

Fyrsti leikur Roma undir stjórn De Rossis verður gegn Verona á laugardaginn. Roma er í 9. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×