Fritzl læsti dóttur sína í kjallara heima hjá sér í 24 ár og eignaðist með henni sjö börn. Málinu hefur verið lýst því versta í austurrískri réttarsögu. Fritzl var sakfelldur fyrir að myrða eitt barnið sitt með vanrækslu auk þess sem hann var sakfelldur fyrir að nauðga og misnota og fangelsa dóttur sína. Dóttir hans og börn hennar hafa fengið ný nöfn og persónueinkenni [e. identity].
Hann er nú 88 ára gamall og með vitglöp. Á vef BBC segir að samkvæmt nýju geðmati sé hann því ekki talinn hættulegur almenningi lengur. Dómstóll í Austurríki geti því ákveðið að færa hann í venjulegt fangelsi. Þá telja sérfræðingar að einnig sé möguleiki fyrir Fritzl til að sækja um reynslulausn en samkvæmt austurrískum lögum mega þau sem afplána lífstíðardóma sækja um reynslulausn eftir að hafa afplánað í fimmtán ár. Fritzl gæti sótt um slíkt á næsta ári.
Sérfræðingar segja það geta verið lausn fyrir Fritzl sem hefur breytt nafni sínu og gæti þá verið fluttur á hjúkrunar- eða elliheimili.
Héraðsdómstóll úrskurðaði árið 2022 að Fritzl væri ekki lengur hættulegur og að það væri hægt að flytja hann í venjulegt fangelsi. Æðri dómstóll í Vín kom síðar í veg fyrir að það yrði gert.