Enski boltinn

„Vonandi get ég sýnt þeim hvernig á að vinna bikar“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Littler hefur slegið í gegn á heimsmeistaramótinu í pílukasti en hann er dyggur stuðningsmaður Manchester United.
Littler hefur slegið í gegn á heimsmeistaramótinu í pílukasti en hann er dyggur stuðningsmaður Manchester United. Vísir/Getty

Hinn 16 ára Luke Littler hefur heldur betur stolið senunni í Alexandra Palace á heimsmeistaramótinu í pílukasti. Unglingurinn ætlar að skella sér á Old Trafford þegar mótinu lýkur og vonast til að geta látið gott af sér leiða.

Heimsmeistaramótið í pílukasti er í fullum gangi í Alexandra Palace í London þessa dagana. Margar stórstjörnur hafa látið ljós sitt skína en óvæntasta stjarnan er án efa hinn 16 ára gamli Luke Littler sem er kominn áram í 16-manna úrslit.

Littler hefur fengið mikla athygli og hafa fjölmiðlar keppst við að birta fréttir um hann. Móðir hans birti meðal annars mynd á samfélagsmiðlinum X nú um jólin þar sem Littler sást sitja fyrir framan jólatréð að opna jólagjöfina sína.

Ein jólagjöf Littler gladdi hann meira en aðrar. Hann er nefnilega mikill stuðningsmaður Manchester United og fær að heimsækja Old Trafford á nýju ári.

„Ég fékk dót fyrir Xbox tölvuna mína, fjarstýringu og gjafabréf og síðan tvo miða í skoðunarferð um Old Trafford. Þannig að ég fer þangað eftir heimsmeistaramótið,“ sagði Littler í viðtali.

„Ég hef aldrei farið í skoðunarferðina áður. Ég hef séð nokkra leiki þar,“ bætti Littler við.

Þegar síðan var nefnt við hann að hann gæti mögulega heimsótt Old Trafford með heimsmeistarabikarinn í farteskinu þá glotti hann.

„Vonandi get ég sýnt þeim hvernig á að vinna bikar,“ en gengi United hefur verið brösugt síðustu misserin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×