Heimamenn í Napoli stilltu ekki upp sínu sterkasta liði í kvöld, en Giovanni Simeone virtist þó vera að koma liðinu yfir á 37. mínútu. Eftir skoðun myndbandsdómara var markið þó dæmt af vegna þess að boltinn hafði viðkömu í hönd leikmanns liðsins og staðan var því enn markalaus þegar flautað var til hálfleiks.
Heimamenn gerðu tvær tvöfaldar skiptingar snemma í síðari hálfleik þegar þeir Giovanni Di Lorenzo, Stanislav Lobotka, Khvicha Kvaratskhelia og Victor Osimhen komu allir inn á. Þrátt fyrir að stórskotaliðið væri mætt voru það gestirnir í Frosinone sem tóku forystuna með marki frá Enzo Barrenechea á 65. mínútu.
Giuseppe Caso tvöfaldaði forystu gestanna fimm mínútum síðar áður en Walid Cheddira og Abdou Harroui gerðu út um viðureignina með sínu markinu hvor í uppbótartíma.
Niðurstaðan því ótrúlegur 0-4 sigur Frosinone sem er á leið í átta liða úrslit ítölsku bikarkeppninnar á kostnað Napoli sem er úr leik.