Þar segir að almannavarnayfirvöld hafi sömuleiðis ítrekað í fjölmiðlum að ekkert neyðarástand sé í Vestmannaeyjum vegna þessa. Unnið sé að því að koma í veg fyrir að þær aðstæður skapist. Núverandi vatnslögn tryggi nægilegt vatnsrennsli til heimila og fyrirtækja enn sem komið er og unnið sé markvisst að því að svo verði áfram.
„Áætlanir miða að því að vatnsleiðslan verði tryggilega fest þannig að óveður muni ekki geta skemmt hana frekar en orðið er. Nokkrar leiðir eru til skoðunar svo að lögnin haldi þar til ný verður lögð, sem stjórnvöld segja að sé forgangsmál. Ástandið sem nú hefur skapast hefur því sett nauðsynlegan þrýsting á að varanlegri lausn verði hrint í framkvæmd sem allra fyrst,“ segir á vef bæjarins.
Á sama tíma sé til staðar áætlun um að tryggja afhendingu vatns til skamms tíma muni lögnin rofna.
„Ljóst er að svigrúm er til að bregðast tímanlega við og tryggja að vatn berist heimilum og fyrirtækjum komi til skerðingar. Varaforði vatns er til staðar í bænum auk þess sem Víðir Reynisson, sviðstjóri almannavarna, greindi frá því í samtali við fjölmiðla að vatn yrði flutt til Eyja rofni leiðslan. Stærstu sjávarútvegsfyrirtækin hafa nú þegar undirbúið kaup á síubúnaði sem framleiðir vatn úr sjó sem góð reynsla er komin á erlendis. Með þessu verður vinnsla tryggð þar til ný vatnslögn verður lögð.“
Á næstu dögum sé stefnt að því að ganga frá pöntun á nýrri vatnsleiðslu sem ætti að vera komin í notkun í síðasta lagi næsta sumar.
„Samhliða þessum verkefnum, sem eru þegar komin í ferli, eru bæjaryfirvöld að njóta liðsinnis hæfustu manna hjá Almannavörnum við að skipuleggja hinar ýmsu sviðsmyndir sem gætu komið upp við þessar aðstæður.“