Vinkonurnar Helena Mara, Emilía Ýr og Þórey Fjóla heldu samskonar jólamarkað fyrir síðustu jól en sá markaður gekk svo vel að þær ákváðu að endurtaka leikinn og verður jólamarkaðurinn í dag frá klukkan eitt til sex í félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd.
En hvað kemur til með þennan mikla áhuga hjá vinkonunum á jólamarkaði annað árið í röð?
„Okkur fannst vanta eitthvað aðeins meira upp á jólastemminguna í bæinn okkar og markaðurinn var okkur öllum ofarlega í huga hjá okkur, sem stöndum að þessu. Við ákváðum bara að kýla á þetta og ákváðum að endurtaka leikinn í ár því þetta gekk svo vel í fyrra og þetta hefur gengið enn þá betur núna með að fá söluaðila til að taka þátt,“ segir Helena.

Já, Helena segir að nú sé búið að fylla félagsheimilið af fjölbreyttum sölubásum en í dag verða 28 seljendur í félagsheimilinu með allskonar vörur til sölu.
„Við lofum alvöru jólastemmingu ekki síst ef einhverjir eru ekki komnir í gírinn, þá er bara tilvalið að koma við og jólaandinn mun hellast yfir fólk,“ segir Helena.
Og er að myndast jólastemming á Skagaströnd?
„Já, hún er alltaf að koma með hverjum degi, sem líður nær desember, jólaljósunum fjölgar og fjölgar,“ segir Helena að lokum.
