Berglind Rán Ólafsdóttir, forstýra ORF líftæknifyrirtækis, er nú við Grindavíkurafleggjarann og bíður eftir leyfi að komast inn á svæðið.
„Við erum að bíða efir svari, tilbúin ef kallið kemur,“ segir Berglind í samtali við fréttastofu.
Teymi frá fyrirtækinu fór inn á sunnudag til að kanna aðstæður en framleiðslan er staðsett í gróðurhúsi sem er beint ofan á sprungunni sem hefur myndast í Grindavík. Þegar þau komu í húsið á sunnudag voru um tíu til tuttugu brotnir gluggar og sprungur í veggjum og gólfi. Berglind segist eiga von á því að það gætu verið meiri skemmdir núna.
„Það sem stendur til er að gera fylla á vöktunarkerfið og taka eintak eða eintök af verðmætustu plöntunum,“ segir Berglind.
Mjög verðmæt prótein í framleiðslu
Plönturnar sem um ræðir eru erfðabreyttar plöntur sem framleiða verðmæt prótein. Til dæmis fyrir snyrti- og húðvörufyrirtækið Bioeffect og í framleiðslu á svokölluðu vistkjöti.
„Þarna erum við í þróun á nýjum afbrigðum og framleiðslu fyrir Bioeffect. En við erum einnig með framleiðslu í Kanada.“
Ekkert á við missi Grindvíkinga
Spurð um það tap sem þau standa frammi fyrir segir Berglind tjónið auðvitað mikið. Aðallega felist það þó í tapi á tíma í þróun. Missi þau gróðurhúsið séu þau að tapa tíma og í einhverjum tilvikum einu og hálfu ári á eftir í þróun í ákveðnum plöntum.
Hún segir stöðuna erfiða en að það sé ekkert miðað við það sem Grindvíkingar gangi nú í gegnum.
„Það er erfitt að hugsa um þetta, en það er ekkert erfitt miðað við það sem Grindvíkingar eru að kljást við. Þetta er allt annað samhengi. Við getum unnið þetta upp og erum ekki að missa heimili.“