Öllum íbúum Grindavíkur var gert að yfirgefa bæinn á föstudaginn vegna skjálftavirkni á svæðinu. Enn eru taldar miklar líkur á gosi sem yrði að öllum líkindum við kvikuganginn.
Grindvíkingum hafa borist baráttukveðjur víða að undanfarna daga. Meðal þeirra sem hafa sýnt bæjarbúum stuðning í þeirri erfiðu stöðu sem þeir eru í er Sharpe.
Hann sló í gegn með United í byrjun 10. áratugarins og varð þrisvar sinnum Englandsmeistari með liðinu. Sharpe lék átta landsleiki fyrir England.
Eftir að hann yfirgaf United 1996 fjaraði undan ferlinum og hann samdi við Grindavík 2003. Sharpe stoppaði þó stutt við í Grindavík og lék aðeins fimm leiki í deild og bikar með liðinu.
Hann er þó ekki búinn að gleyma dvöl sinni í bænum fyrir tuttugu árum og sendi bæjarbúum kveðju á Twitter í dag.
„Er að hugsa um magnaða fólkið í Grindavík. Þetta er mjög sérstakur staður,“ skrifaði Sharpe á Twitter.
Thinking of the wonderful people of Grindavik. A very special place
— Lee Sharpe (@Sharpeyofficial) November 14, 2023
Í sjónvarpsþættinum Foringjarnir viðurkenndi Jónas Þórhallsson, fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur að Sharpe hafi verið of stór biti fyrir félagið.
„Enn og aftur var ég efins um þetta. Auðvitað er frábært að fá svona nafn en ég sagði strax að við myndum ekki höndla það, hvorki leikmenn, stjórnarmenn né þjálfarar. Þetta væri bara það stórt nafn og svo kostaði þetta þvílíka fjármuni,“ sagði Jónas.
„Það voru tveir bræður sem eru miklir stuðningsmenn og ævintýramenn, yndislegir drengir, sem stóðu að baki þessu. Þeir komu þrisvar og bönkuðu og sögðu að allt væri klárt, að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að safna peningunum. Á endanum var þetta samþykkt og það fór eins og það fór. Hann stoppaði bara í tvo til þrjá mánuði.“
Sharpe lagði skóna á hilluna 2004 eftir að hafa leikið með Garforth Town. Hann hefur síðan gert garðinn frægan í sjónvarpi og gerðist atvinnumaður í golfi. Sharpe er búsettur á Spáni í dag.